Boðað var til samstarfsaðilafundar vegna stórsýningarinnar Verks og vits 2018 þar sem farið var yfir framkvæmd sýningarinnar og stöðu hennar nú á haustdögum. 

Þar var m.a.  farið yfir viðhorfskönnun sem Outcome-hugbúnaður ehf. gerði fyrir AP almannatengsl á meðal sýnenda á Verki og viti 2016 þar sem kom m.a. fram að 95% sýnenda voru ánægð með sýninguna. Þá fannst rúmlega 96% sýnenda að markmiðum þeirra hefði verið náð með þátttöku fyrirtækis þeirra í sýningunni.

Mikill áhugi

Einnig var sagt frá þeim mikla áhuga sem nú er fyrir sýningunni, þar sem afar vel tókst til með Verk og vit síðast. Skráning er hafin og gengur mjög vel. Samtök iðnaðarins hafa bent á að þegar litið er til næstu missera sé afar mikilvægt að ráðast í innviðaframkvæmdir á ýmsum sviðum til þess að undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Í því verkefni er byggingariðnaðurinn í lykilhlutverki og Verk og vit því kærkomin inn í þá umræðu.

Fjölbreyttir viðburðir verða haldnir samhliða sýningunni og verða þeir kynntir þegar nær dregur. Skráning er hafin hér á vefnum.

Á myndinni má sjá fulltrúa samstarfsaðila Verks og vits 2018, talið frá vinstri: Ingibjörg Gréta Gísladóttir (Verk og vit), Árni Jóhannsson (Samtök iðnaðarins), Óli Jón Hertevig (Reykjavíkurborg), Rakel Pálsdóttir (Samtök iðnaðarins), Elsa Giljan Kristjánsdóttir (Verk og vit), Pétur B. Guðmundsson (Landsbankinn) og Árni Reynir Alfredsson (BYKO).

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.