Loading...
Um sýninguna 2018-06-27T16:22:18+00:00

Stórsýningin Verk og vit 2018 var haldin í fjórða sinn dagana 8. – 11. mars 2018 í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal en hún er tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum, mannvirkjagerð og tengdum greinum.

Sýningin er ætluð framleiðendum og innflytjendum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum. Fyrstu tvo dagana, 8 og 9. mars, var sýningin opin fyrir fagaðila en helgina 10.–11. mars var almenningur einnig boðinn velkominn.

Á sýningunni var slegið nýtt aðsóknarmet en þá lögðu um 25.000 gestir leið sína á sýninguna þar sem um 120 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu vörur sínar og þjónustu. Sem dæmi um sýnendur má nefna húsaframleiðendur, verkfræðistofur, menntastofnanir, innflytjendur, fjármálafyrirtæki, tækjaleigur, bílaumboð, steypustöðvar, hugbúnaðarfyrirtæki og starfsmannaleigur.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar var AP almannatengsl en samstarfsaðilar voru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.

Ummæli sýnenda

„Við hjá BYKO höfum tekið þátt í öllum Verk og vit sýningunum frá upphafi og verðum að sjálfsögðu með aftur núna. Okkur finnst sýningin mjög mikilvægur og áhrifaríkur vettvangur til að kynna fyrirtækið og þjónustu fyrir lykilviðskiptavinum okkar, sem og að sjálfsögðu gestum og gangandi.“
Eggert Kristinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs BYKO

„Sýningin Verk og vit er frábær vettvangur fyrir Verkís til að miðla áralangri þekkingu og kynna spennandi nýjungar. Verkís hefur tekið virkan þátt í sýningunni frá upphafi og hyggst halda því áfram. Við erum þakklát fyrir tækifærin sem felast í sýningunni og hlökkum til að hitta ykkur á Verki og viti 2018.“
Alda J. Rögnvaldsdóttir, kynningarstjóri Verkís

„Verk og vit 2016 stóðst allar okkar væntingar og meira til. Þátttakan í sýningunni skilaði Securitas aukinni kynningu og sölu á vörum og þjónustu fyrirtækisins. Við förum því full tilhlökkunar inn í Verk og vit 2018.“
Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas

„Við hjá Íslandslyftum hefðum ekki getað verið ánægðari með Verk og Vit 2016. Birgjar okkar voru uppnumdir af árangrinum og athyglinni sem við fengum bæði á sýningunni og á eftir. Enn þann dag í dag erum við að fá fyrirspurnir þar sem minnst er á að viðkomandi hafi séð okkur á Verk og Vit 2016.  Vöxtur Íslandslyfta ehf. á árinu 2016 var 50% og hluti af því er þátttaka okkar í sýningunni. Við hlökkum gríðarlega til að taka þátt í sýningunni 2018 og birgjar okkar eru ákveðnir í að styðja okkur og taka þátt í kostnaði með okkur“
Helgi Skúli Helgason, eigandi og yfirmaður sölumála hjá Íslandslyftum ehf.

Landstólpi ehf. er fyrirtæki sem starfar á landsvísu, þess vegna er Verk og Vit kjörinn vettvangur til að koma okkur á framfæri. Við tökum þátt í okkar þriðju sýningu í ár (2018) sem endurspeglar þann árangur sem við höfum fundið fyrir í kjölfar fyrra sýninga en Verk og Vit er hrein byggingarsýning sem skilar stórum hluta okkar markhóps og mun betur heldur en ef um blandaða sýningu væri að ræða. Við erum búin að byggja vel á annað hundrað stálgrindarhúsa þannig að við erum nokkuð þekkt í okkar geira en Verk og Vit er tilvalið tækifæri til að minna enn frekar á okkur. Við höfum verið mjög ánægð með alla umgjörð um sýninguna og höfum átt mjög gott samstarf við sýningarhaldara.
Sýning sem þessi er nauðsynleg byggingariðnaðinum á Íslandi og þá ekki síst til að hvetja æsku landsins til dáða á þessu sviði og sýna hversu margt greinin hefur upp á að bjóða.
Arnar Bjarni Eiríksson, framkvæmdastjóri Landstólpa ehf.