Mannvirkjaiðnaðurinn hér á landi er frekar ung atvinnugrein í samanburði við sama iðnað annarra landa. Íslensku mannvirkjafyrirtækin hafa þó þroskast hratt og hafa náð að verða sérhæfðari eftir því sem verkefnin verðar fjölbreyttari. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir að tilgangur sérhæfingar mannvirkjafyrirtækjanna sé að auka umsvif sín og sérfræðiþekkingu með ráðningu á réttum mannauði og tækjakosti. Hlúa þurfi að atvinnugreininni og varast að steypa mannvirkjafyrirtækin öll í sama mót. Jóhanna Klara segir að það megi skipta sérsviðum mannvirkjaiðnaðarins upp eftir þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. „Þar er fjárfesting í efnislegum þáttum skipt í þrennt, þ.e. íbúðarhúsnæði, mannvirki atvinnuveganna og opinbera innviði. Þannig er byggingariðnaðinum einnig skipt upp, þ.e. íbúðauppbygging, atvinnuvegauppbygging og innviðauppbygging. Við þetta má síðan bæta viðhaldsverkefnum sem eru í raun fjórða stoðin og er viðhald opinberra innviða þar umfangsmikið.“

Kalla eftir stöðugleika og fyrirsjáanleika
Á síðasta ári var fjárfesting í íbúðarhúsnæði minnst eða 146 ma.kr., 156 ma.kr. var varið í opinbera innviði og 184 ma.kr. fóru í mannvirki atvinnuveganna. „Þessi skipting kemur eflaust mörgum á óvart í ljósi umræðunnar undanfarin misseri um alvarlega stöðu á íbúðamarkaði. Afleiðingar af því að íbúðamarkaðurinn byggist ekki upp í takti við þarfir samfélagsins eru okkur flestum kunnar og endurspeglast í háum húsnæðiskostnaði, aukinni verðbólgu, háum vöxtum og óstöðugleika í íslensku efnahagslífi,“ segir Jóhanna Klara.

Hún segir að með hliðsjón af sérhæfingu fyrirtækja í mannvirkjaiðnaði liggi fyrir að þau hoppi ekki á milli sérsviða í greininni og þörfinni fyrir íbúðauppbyggingu verði ekki mætt nema að litlu leyti með fyrirtækjum innan annarra greina mannvirkjaiðnaðar. „Til að stuðla að hraðari og betri íbúðauppbyggingu þarf því að hafa þarfir þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í slíkri uppbyggingu sérstaklega til hliðsjónar. Þessi fyrirtæki kalla öll eftir stöðugleika og fyrirsjáanleika og að komið sé til móts við þau þegar ytri aðstæður gera þeim ekki kleift að sinna starfi sínu.“

Áætlanir úr skorðum með alvarlegum afleiðingum
Jóhanna Klara segir að fyrirtæki sem sérhæfa sig í íbúðauppbyggingu hafi lengi glímt við stefnuleysi stjórnvalda sem hafi þó undanfarið og með tilkomu innviðaráðuneytisins unnið hörðum höndum að því að taka í taumana á málaflokknum, t.a.m. með rammasamningi ríkis og sveitarfélaga og nýrri húsnæðisstefnu stjórnvalda.

„Mikilvægt er að vel takist til við stefnumörkun málaflokksins enda uppbygging íbúðarhúsnæðis ein af grundvallarforsendum þess að hér byggist upp samkeppnishæft atvinnulíf og gott samfélag. Ófyrirséðar og fyrirvaralausar breytingar á starfsumhverfi þessara fyrirtækja hafa einnig sett allar áætlanir þeirra úr skorðum með alvarlegum afleiðingum. Má þar m.a. nefna að kostnaður við íbúðauppbyggingu hækkaði mikið á síðasta ári eða um rúmar 7 milljónir króna á íbúð og telur þar helst hækkun fjármagnskostnaðar og byggingarkostnaðar og ekki síst fyrirvaralausar skattahækkanir í formi breytinga á endurgreiðsluhlutfalli af vinnu manna á verkstað sem fór úr 60% í 35%.“

Nauðsynlegt að gera raunhæfar áætlanir um íbúðauppbyggingu
Í greiningu sem Samtök iðnaðarins birtu fyrir skömmu kemur fram að verulegur samdráttur verði í byggingu nýrra íbúða. Jóhanna Klara segir að greiningin byggi á könnun sem lögð var fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir í eigin reikning og því mikið mark á henni takandi. „Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar reikna stjórnendurnir með því að byrjað verði á byggingu 699 íbúða hjá þeirra fyrirtækjum á næstu tólf mánuðum samanborið við 986 á síðustu tólf mánuðum. Samdrátturinn er því 29%. Þetta bætist þá við þegar svartar horfur sem birtust í talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem framkvæmd var í september síðastliðnum, sem sýndi að þá þegar væri 68% samdráttur í fjölda íbúða í byggingu frá talningunni í mars á síðasta ári.“

Jóhanna Klara segir að til að koma í veg fyrir að þessi samdráttur raungerist þurfi stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnulífið að koma saman. „Það er nauðsynlegt að gerðar verði raunhæfar áætlanir um íbúðauppbyggingu og finna þarf lausnir með fyrirtækjunum til að liðka fyrir uppbyggingaráformum.“

Viðtalið var birt í Sérblaði Verk og Vit. Ýttu HÉR til að skoða blaðið í heild sinni