Seinna sérblað Verk og vit fylgdi með Viðskiptablaðinu 21. febrúar en þar er fjallað vítt og breitt um stórsýninguna Verk og vit 2024, sem haldin verður í Laugardalshöll 18.-21. apríl nk.

Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit, segist í viðtali í blaðinu vera ánægð með hversu áhugasöm fyrirtæki og stofnanir voru um að sýna vörur sínar og þjónustu á Verk og vit miðað við þær krefjandi markaðsaðstæður sem nú séu í samfélaginu. „Öll rými voru uppseld fyrir nokkrum mánuðum, enda hafa sýningar fyrri ára skilað árangri fyrir marga þátttakendur í formi nýrra viðskiptavina og jafnvel aðildarfélaga eða samstarfsaðila,“ segir Elsa.

Þá segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í viðtali í blaðinu að mannvirkjafyrirtæki hér á landi séu stöðugt að efla sérfræðiþekkingu og umsvif fyrirtækjanna. Með ráðningu á réttum mannauði og tækjakosti þroskast þau og auka sérhæfingu. Hlúa þurfi að atvinnugreininni og varast að steypa mannvirkjafyrirtækin öll í sama mót.

Í blaðinu eru einnig viðtöl við forsvarsmenn ýmissa fyrirtækja sem taka þátt í sýningunni í ár. Má þar nefna viðtal við Sigurð Pálsson, forstjóra BYKO, en fyrirtæki hans hefur fyrst framleiðenda hlotið Svansvottun á gluggum sem framleiddir eru sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Það er margt spennandi í gangi hjá BYKO sem reisir nú nýjar höfuðstöðvar í Breiddinni. Fannar Örn Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Terra Eininga, segir frá einingalausnum fyrir margs konar húsnæði. Hann segir að undanfarin ár hafi mikill vöxtur verið í eftirspurn eftir einingahúsum á íslenskum markaði. Bergný Jóna Sævarsdóttir, sjálfbærni- og verkefnisstjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, lýsir því hvernig félagið leiðir verkefni um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll. Verkefnið snýr að því að vistvænt atvinnusvæði rísi í Helguvík-Bergvík. Auk þess eru í blaðinu viðtöl við forsvarsmenn Polynorth, Kamba, Landbúnaðarháskólans, Stólpa Gáma og Toyota Professional.

Fram kemur hjá sýnendum að þeir eru spenntir að taka þátt í Verk og vit og telja fyrirtæki sín hafa mikinn ávinning af sýningunni m.a. með því að auka tengslamyndun og styrkja viðskiptasambönd.

LESA BLAÐIÐ