Stórsýningin Verk og vit hófst í dag og er þetta í fjórða sinn sem sýningin er haldin. Mikill fjöldi gesta lagði leið sína á opnunina og var mikil ánægja á meðal þeirra jafnt sem sýnenda. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, fluttu ávörp og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, opnaði sýninguna formlega.

Verk og vit er haldin 8.–11. mars í Laugardalshöll. Um 120 sýnendur taka þátt í sýningunni en hún er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum.

„Verk og vit felur í sér einstakt tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, til að kynna vörur sínar og þjónustu og eiga í fagsamtali sín á milli, sem er mikilvægt í öllum starfsgreinum,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar. „Það er mikill metnaður í sýnendum og sérlega ánægjulegt að opna jafn glæsilega sýningu og við sjáum hér í dag.“

Verk og vit er opin fyrir fagaðila á morgun, föstudag 9. mars, og svo er almenningur boðinn velkominn í Laugardalshöll um helgina, 10.–11. mars. 

Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.