Stórsýningin Verk og vit hefst klukkan 17.00 í dag og stendur yfir fram á sunnudag. Fyrstu tveir dagarnir eru tileinkaðir fagaðilum en um helgina er almenningur einnig boðinn velkominn og verður margt að sjá fyrir unga sem aldna.

Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum.

Sýnendur sem eru um 120 talsins leggja mikinn metnað í að gera sýninguna sem veglegasta og hafa unnið dag og nótt til að gestir megi njóta sem best.

Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.