Stórsýningin Verk og vit verður haldin í þriðja skipti dagana 3.–6. mars næstkomandi í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Sýningin er tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum, mannvirkjagerð og tengdum greinum. Fyrstu tvo dagana verður hún  opin fyrir fagaðila en um helgina er almenningur einnig boðinn velkominn.

Alls eru 90 sýnendur skráðir til leiks og því viðbúið að fjölbreytileikinn verði allsráðandi í Höllinni. Fyrirtækin sem taka þátt koma úr ýmsum geirum atvinnulífsins og má þar til dæmis nefna byggingaverktaka, verkfræðistofur, tækjaleigur, skóla, fjármálafyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög.

„Á fimmtudeginum verða Landsbankinn og Samtök iðnaðarins með áhugaverða ráðstefnu um mannvirkjagerð á Íslandi. Auk þess verður fjöldi viðburða á vegum sýnenda þar sem m.a. verður rætt um hvernig orkunotkun getur farið beint í ræsið, mismunandi notkunarmöguleika gröfunnar, myndavélaöryggi og skipulagsmál.  Sýningin er einstaklega fjölbreytt og verður margt að sjá, allt frá heilum húshlutum til fjarstýrðrar þyrlu sem verður flogið yfir Laugardalshöll ef veður leyfir,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Síðasta sýning tókst mjög vel í alla staði. Um 92% sýnenda þá töldu grundvöll fyrir því að hún yrði haldin aftur. Nærri 90% voru mjög ánægð með sýninguna og um 18.000 gestir mættu.

„Við áttum von á því að að þátttakan yrði góð og sú tilfinning var rétt. Sýningin er góður vettvangur fyrir fagaðila til að kynna vörur sínar og þjónustu, mynda viðskiptasambönd við aðra sýnendur og auðvitað gesti sýningarinnar. Hér ríkir mikil eftirvænting og allir leggjast á eitt til að sýningin verði sem veglegust,“ segir Ingibjörg Gréta.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, LNS Saga, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.

Allar nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.verkogvit.is.