Stórsýningin Verk og vit verður haldin í fimmta sinn dagana 12.-15. mars 2020 í Íþrótta og sýningarhöllinni í Laugardal. Mikill áhugi hefur verið bæði meðal fagaðila og almennings á sýningunum sem haldnar hafa verið á tveggja ára fresti. Sala sýningarsvæðis hefst 23. september.

Á síðustu Verk og vit sýningu árið 2018 var slegið aðsóknarmet en um 25.000 gestir sóttu þá sýninguna í Laugardalshöll, þar sem um 110 sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu. Meðal sýnenda voru byggingarverktakar, verkfræðistofur, tækjaleigur, skólar, fjármálafyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög.

Í viðhorfskönnun sem Outcome-hugbúnaður gerði fyrir AP almannatengsl á meðal sýnenda Verks og vits 2018 sögðust um 94% sýnenda ánægðir með sýninguna. Þar kom einnig fram að allir sýnendur telja grundvöll fyrir því að Verk og vit verði haldin aftur.

AP almannatengsl er framkvæmdaaðili sýningarinnar en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.

Nánari upplýsingar veitir:
Róbert Róbertsson, upplýsingafulltrúi Verk og vit, í síma 861 3575