Það er gaman að segja frá því að uppselt er á sýningarsvæði stórsýningarinnar Verk og vit 2018 sem verður haldin í fjórða sinn í Laugardalshöll 8.-11. mars næstkomandi, nú þegar rétt um mánuður er í opnun. Um 120 fyrirtæki og stofnanir kynna vörur sínar og þjónustu. Sem dæmi um sýnendur má nefna húsaframleiðendur, verkfræðistofur, menntastofnanir, innflytjendur, fjármálafyrirtæki, tækjaleigur, bílaumboð, steypustöðvar, hugbúnaðarfyrirtæki og starfsmannaleigur.

Mikilvæg fagsýning
„Verk og vit er fyrst og fremst fagsýning. Hún felur í sér einstakt tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda til að kynna vörur sínar og þjónustu. Hún er kjörinn vettvangur fyrir sýnendur til að styrkja tengslanetið, efla samband við núverandi viðskiptavini og bæta nýjum í hópinn,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Hún segir jafnframt að fagsýning eins og Verk og vit sé mikilvæg fyrir iðnaðinn og menntastofnanir, því þar komi aðilar saman og kynna framsæknar nýjungar og þróun í skipulagsmálum, byggingariðnaði og mannvirkjagerð. „Það að uppselt sé á sýningarsvæðið mánuði fyrir sýningu staðfestir það,“ segir Ingibjörg Gréta að lokum.

Sýningin Verk og vit er ætluð þeim sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.