Uppselt er á sýningarsvæði stórsýningarinnar Verk og vit 2024 þrátt fyrir að enn séu sjö mánuðir í sýninguna. Það er því ljóst að fyrirtæki og stofnanir í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð hafa mikinn áhuga á að kynna vörur sínar og þjónustu.

Verk og vit 2024 verður haldin í Laugardalshöllinni 18.-21. apríl á næsta ári, en þetta er í sjötta skipti sem sýningin er haldin. Eftirspurn eftir sýningarsvæði hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en nú, því fáheyrt er að sýningarsvæðið sé uppbókað svo löngu fyrir sýningu.

„Við erum himinlifandi yfir móttökunum og hversu tilbúnir sýnendur eru nú þegar til að hefja skipulagninguna. Við heyrum á þeim að mikill metnaður verður lagður í hugmyndavinnu, hönnun og uppsetningu sýningarsvæðanna, sem ég er fullviss um að skili sér í glæsilegri, fjölbreyttri og spennandi sýningu fyrir gesti okkar í vor,“ segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit.

Verk og vit hefur skipað sér sess sem mikilvægur vettvangur fyrir fólk og fyrirtæki í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð til að hittast, kynna starfsemina, styrkja viðskiptasambönd og afla nýrra. Á síðustu sýningum hafa sýnendur verið yfir 100 talsins, auk þess sem fjölmargir viðburðir hafa verið haldnir í tengslum við sýningarnar.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.