Stórsýningin Verk og vit 2016 verður opnuð á fimmtudaginn og er nú þegar uppselt á sýningarsvæðið í Laugardalshöllinni. Alls munu um 90 fyrirtæki ásamt sveitarfélögum kynna vörur sínar og þjónustu, en sýningin stendur yfir í fjóra daga. Fyrirtækin sem um ræðir koma úr margvíslegum geirum og má þar til að mynda nefna byggingarverktaka, byggingarvöruverslanir, fjármálafyrirtæki, háskóla, steypustöðvar, verkfræðistofur og öryggisfyrirtæki. Þegar sýningin Verk og vit var síðast haldin, árið 2008, sóttu hana um 18.000 gestir.

„Verk og vit er kjörinn vettvangur fyrir fagaðila til að koma saman og mynda viðskiptasambönd og lofar sýningin góðu, enda sérlega fjölbreytt. Sýnendur eru spenntir fyrir að kynna starfsemi sína og fjölbreytileikinn er það mikill að sýningargestir ættu auðveldlega að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Uppsetning á sýningunni hófst í morgun og munu heilu húshlutarnir verða settir upp, ásamt mörgu öðru sem vert er að skoða. „Það er mikill metnaður í gangi og gefur þessi sem nú verður haldin fyrri sýningum ekkert eftir. Þetta verður glæsilegt,“ segir Ingibjörg.