Nær uppselt er á stórsýninguna Verk og vit sem haldin verður í fimmta sinn dagana 12.-15. mars 2020 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Um hundrað sýnendur hafa þegar skráð sig til leiks.

Við finnum fyrir miklum áhuga á sýningunni sem sést best á því að það er nær uppselt tæpum tveimur mánuðum fyrir sýninguna. Það er ánægjulegt og hvetjandi fyrir okkur skipuleggjendur að finna hversu vel sýnendur hafa tekið í Verk og vit. Það er mikill metnaður í sýnendum nú sem endranær og mikil tilhlökkun bæði í okkur skipuleggjendum sem og sýnendum að gera sýninguna sem glæsilegasta. Metnaður sýnenda á stóran þátt í því hversu vel ætíð hefur tekist til, segir Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla sem er framkvæmdaaðili sýningarinnar.

Tími til að sækja fram

Sýningin Verk og vit hefur sannað sig sem mikilvægur vettvangur fyrir aðila í bygginga- og mannvirkjageiranum til að hittast, styrkja viðskiptasambönd og afla nýrra, kynna vörur og þjónustu ásamt því að ræða málin en allt þetta skýrir m.a. hina góðu þátttöku Nú er góður tími fyrir fyrirtæki að þétta raðirnar, sækja fram og setjast niður með núverandi og nýjum viðskiptavinum og eiga samtal um verkefnin sem framundan eru. Til þess er sýningin Verk og vit frábær vettvangur.

Sem fyrr er sýningin ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðar, skipulagsmála og mannvirkjagerðar. Meðal sýnenda eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, skólar, fjármála-, ráðgjafa-, og hugbúnaðarfyrirtæki, sveitarfélög, tækjaleigur svo eitthvað sé nefnt.  Þá gefst almenningi og nemendum einnig kostur á að að kynna sér þessar mikilvægu atvinnugreinar.

Á síðustu Verk og vit sýningu árið 2018 var slegið aðsóknarmet en um 25.000 gestir komu á þá sýningu, þar sem um 110 sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu.

Samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn. Sýningin verður opin fagaðilum á fimmtudegi og föstudegi og almenningur verður síðan boðinn velkominn á laugardag og sunnudag.

 

Myndatexti:
Samstarfsaðilar Verk og vit ásamt framkvæmdaaðilum sýningarinnar. Frá vinstri eru Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, Kristján Daníel Sigurbergsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, Þorsteinn Stefánsson, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans, Árni Reynir Alfredsson, markaðsstjóri BYKO, Áslaug Pálsdóttir framkvæmdastjóri Verk og vit, og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit.