„Hér verða byggðir heilu húshlutarnir og lætur nærri að á gólfi Laugardalshallar muni rísa heilt þorp. Það er aðdáunarvert hversu mikla vinnu og hönnun sýnendur leggja í sín svæði og hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.“segir Ingibjörg Gréta, framkvæmdastjóri sýningarinnar, í viðtali við Morgunblaðið.

Hún segir jafnframt að greinin sé óneitanlega með góðan meðbyr um þessar mundir, það sé bjartsýni í fólki og að hún sé viss um að það muni skila sér á sýninguna. „Það verður gaman ekki síður en gagnlegt að koma á Verk og vit 2018,“ segir hún ennfremur.

Í viðtalinu kemur fram að ný og áhugaverð fyrirtæki í bland við gamalgróin og vel þekkt verði á sýningunni og breiddin hjá sýnendum eftir því mikil. Þá segir Ingibjörg Gréta að sýningin sé ómetanlegur vettvangur til að sýna sig og sjá aðra, á meðan árferðið sé eins og raun ber vitni.  Verk og vit hafi sannað mikilvægi sitt, hvort sem er í uppsveiflu eða samdrætti, fyrir fagaðila til að hittast, hitta viðskiptavini og efla viðskiptatengsl, og fyrir almenning að sjá hvað er í boði.

„Verk og vit felur í sér einstakt tækifæri fyrir alla í þessari grein til að kynna vörur sínar og þjónustu, en ekki síður til að bæta við og styrkja tengslanetið, efla sambandið við núverandi viðskiptavini og bæta um leið nýjum í hópinn,“ segir Ingibjörg Gréta.

Í viðtalinu er einnig komið inn á kynningar til 10. bekkinga meðan á sýningunni stendur. Ingibjörg Gréta segir mikilvægt fyrir unga fólkið að átta sig á þeim tækifærum í menntun og atvinnu sem í boði eru í þessum geira, en í kjölfar síðustu sýningar fyrir tveimur árum  var metaðsókn í Tækniskólann sem hún segir að sýningin hafi átt svolítinn hlut í. Að þessu sinni eru tveir skólar þátttakendur í sýningunni, Tækniskólinn og Háskólinn í Reykjavík. „Við erum því að tala um að nemendur á grunnskóla-, menntaskóla- og háskólastigi komi á sýninguna og kynnist greininni, og á móti eru mjög margir sýnendur spenntir fyrir því að fá nemendur á sýninguna til að kynna starfsemina fyrir þeim.“

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér.