Stórsýningin Verk og vit verður haldin í sjötta sinn dagana 18.-21. apríl 2024 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal.

Markmið sýningarinnar eru annars vegar að auka tengslamyndun og styrkja viðskiptasambönd milli fagaðila og hins vegar að auka vitund um starfsemi atvinnugreinanna sem að sýningunni koma, meðal annars hvað varðar vitund um gæða- og menntamál.

„Við krefjandi markaðsaðstæður erum við mjög ánægð með þá góðu aðsókn fyrirtækja og stofnana sem sýnendur á Verk og vit. Það eru nokkrir mánuðir síðan rýmin voru uppseld enda hefur sýningin skilað árangri til margra í formi nýrra viðskiptavina og jafnvel aðildarfyrirtækja eða samstarfsaðila,“ segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit.

Sýningin ávallt vel sótt
„Sýningin er fullkominn staður fyrir sýnendur til að fá betri innsýn í það hvað viðskiptavinur er að óska eftir, þar getur starfsmaðurinn gefið sér tíma til að hefja þetta spjall og fræða viðskiptavininn um vöruna og þjónustuna ásamt því að þarfagreina væntingar gesta. Sýnendur, gestir og framkvæmdaraðilar hafa ávallt verið mjög ánægð með niðurstöður hverrar sýningar fyrir sig og það hefur sýnt sig að Verk og vit er mikilvægur og öflugur fundarstaður byggingar- og mannvirkja iðnaðarins sýningardagana. Meðal gesta og sýnenda höfum við ávallt fengið þau viðbrögð að upplifunin þeirra sé að um vandaða sýningu sé að ræða. Gestir upplifa mikla þjónustulund og fræðslu frá sýnendum. Við höfum ávallt bæði nýliða sem og reynslumeiri sýnendur á sýningunni þannig að hver sýning hefur sinn tón,“ segir Elsa Giljan.

Verk og vit hefur ávallt vakið mikla athygli og verið vel sótt að sögn Elsu Giljan. Gestafjöldi á síðustu sýningum hefur verið í kringum 25.000 og rúmlega 100 sýnendur hafa kynnt vörur sínar og þjónustu. Þá hafa verið haldnar ráðstefnur og aðrir viðburðir í tengslum við sýninguna þar sem fjallað er um byggingariðnað, skipulagsmál, mannvirkjagerð og menntamál frá ýmsum sjónarhornum. Hefur það jafnan aukið faglega umræðu og eflt nýliðun í þessum greinum.

Mál líðandi stundar skína í gegn
„Það eru sveiflur á þessum markaði eins og öðrum þannig að mál líðandi stundar á markaðnum skína bersýnilega í gegn á hverri sýningu fyrir sig,” segir Elsa Giljan. „Mannvirkja- og byggingariðnaður skiptir miklu máli þegar kemur að hönnun loftslags- og umhverfisvænna bygginga og uppbyggingu annarra innviða landsins. Hafa því grænar lausnir, vottanir, endurnýting og umhverfisvænar lausnir verið sterkur boðskapur síðustu sýninga.

Margir sýnendur sýna einnig fram á að stefna þeirra er að huga vel að virðiskeðjunni, allt frá hráefnisframleiðslu og flutningi til fullunninna mannvirkja. Í samstarfi við sýnendur okkar  setjum við lausnir iðnaðarins í brennidepilinn á Verk og vit og tryggjum sýnileika þess að mannvirkjagerð og byggingariðnaðurinn er mjög mikilvægur fyrir Ísland. Ég finn fyrir því að mikill metnaður er í sýnendum sem endranær. Það stefnir því enn og aftur í stórglæsilega sýningu í apríl.  Það verður því heiður að klippa á borðann 18. apríl og opna sýningu sem sýnendur hafa unnið að síðasta árið með miklum metnaði,“ segir Elsa Giljan enn fremur.