Stórsýningin Verk og vit sem fram fer í Laugardalshöll hófst í gær og er þetta í fimmta sinn sem sýningin er haldin. Mikill fjöldi gesta sótti sýninguna heim fyrsta opnunardaginn en sýningin stendur fram á sunnudag. Við opnunina fluttu ávörp Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, flutti einnig ávarp og opnaði sýninguna formlega með því að klippa á borða fyrir framan sýningarsalinn.

Um 100 sýnendur taka þátt í sýningunni en hún er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum,
menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum. „Verk og vit felur í sér einstakt tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, til að kynna vörur sínar og þjónustu og eiga samtal sín á milli, sem er mikilvægt í öllum starfsgreinum,“ segir Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar. „Það er mikill metnaður hjá sýnendum og því var sérlega ánægjulegt að opna þessa glæsilegu sýningu.“

Fyrstu tveir dagarnir eru ætlaðir fagaðilum en um helgina býðst almenningi að heimsækja sýninguna. Síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 27. mars.

Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru innviðaráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.