Stórsýningin Verk og vit 2016 hófst í gær í Laugardalshöllinni. Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem opnaði sýninguna formlega en um 90 sýnendur sem tengjast byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum munu kynna vörur sínar og þjónustu í Laugardalshöll næstu þrjá daga.

Verk og vit verður opin fram á sunnudag og er sýningin mjög fjölbreytt en sýnendur koma úr mörgum geirum atvinnulífsins. Má sem dæmi nefna byggingarverktaka, verkfræðistofur, tæknifyrirtæki, tækjaleigur, fjármálafyrirtæki, orkufyrirtæki, skóla, ráðagjafarfyrirtæki og sveitarfélög.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu margir eru áhugasamir um sýninguna og gáfu sér tíma til að vera með okkur hér í gær. Við hvetjum svo auðvitað alla til að gera sér ferð hingað í Laugardalshöll næstu daga því hér er margt áhugavert að sjá,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók til máls við opnunina og í máli hans kom fram að ómetanlegt samtal mun eiga sér stað á Verk og vit næstu daga. „Þar munu uppbyggingaraðilar, sveitarfélögin og aðrir þátttakendur í samtalinu bera sig saman, kynna verkefni sín og vörur og taka með því saman þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er,“ sagði hann.

Á sýningunni í gær héldu Landsbankinn og Samtök iðnaðarins ráðstefnu um mannvirkjagerð á Íslandi. Tíu einstaklingar úr viðskiptalífinu voru með erindi á ráðstefnunni og kom þar meðal annars fram í máli Daníels Svavarssonar, forstöðumanns hagfræðideildar Landsbankans, að kreppan sé svo sannarlega búin og allir hagvísar á uppleið.

Fyrstu tvo dagana, 3. og 4. mars, verður sýningin opin fyrir fagaðila en um helgina, 5. og 6. mars, verður almenningur einnig boðinn velkominn.

Fjölmargt skemmtilegt verður í boði alla sýningardagana og má meðal annars nefna flug á fjarstýrðri þyrlu sem notuð er til myndatöku og úrvinnslu fyrir landmælingar og framkvæmdir.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, LNS Saga, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.