Sérblað um Verk og vit fylgdi Viðskiptablaðinu þann 16. júní síðastliðinn. Þar er m.a. rætt við fólk sem lifir og hrærist í byggingar-, skipulags- og mannvirkjageiranum um þau mál sem helst brenna á þeim þessa dagana.

Í blaðinu er jafnframt fjallað vítt og breitt um stórsýninguna Verk og vit 2024, sem haldin verður í Laugardalshöll 18.-21. apríl á næsta ári.

Þar er meðal annars rætt við Elsu Giljan Kristjánsdóttur, sýningarstjóra Verk og vit, sem segir að sala á sýninguna hafi farið gríðarlega vel af stað og mikil breidd sé í hópi þeirra sýnenda sem eru þegar búnir að skrá sig.

Í blaðinu er einnig rætt við Sigurð B. Pálsson, forstjóra Byko, sem segir að stafrænar lausnir, sjálfbærni og vöruþróun hafa fengið meira vægi hjá fyrirtækinu síðustu misserin. Dóra Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri mannvirkjafjármögnunar hjá Landsbankanum, ræðir fjármögnun byggingarverkefna, Hermann Guðmundsson, verkefnastjóri viðhaldsþjónustu Ístaks, ræðir m.a. nýtingu fyrirtækisins á upplýsingalíkönum og fyrri reynslu Ístaks af þátttöku í Verk og vit og svona mætti lengi telja, því fjölmargt annað áhugavert má finna í blaðinu.

Lesa blaðið