Átta dagar eru þar til stórsýningin Verk og vit verður opnuð í Laugardalshöll en hún mun standa yfir í fjóra daga, eða frá 3. til 6. mars næstkomandi. Fjölmörg fyrirtæki í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð munu þar kynna vörur sínar og þjónustu en um 90 sýnendur eru nú þegar skráðir til leiks. „Við áttum von á að áhuginn yrði mikill, fyrri sýningar lofuðu góðu um framhaldið og eins er mikill uppgangur í geiranum. Þátttakan er gríðarlega góð og í takt við væntingar okkar,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Verk og vit er aðallega ætluð fagaðilum en er þó þannig samsett að hún ætti einnig að höfða til almennings. Tvo fyrstu dagana er sýningin einungis opin fagaðilum en þá tvo síðari eru allir velkomnir, en þegar hún var síðast haldin árið 2008 sóttu um 18.000 gestir sýninguna. „Við vonumst auðvitað til að sjá sem flesta sýningargesti og lofum því að það verður margt áhugavert í boði enda er mikill hugur er í sýnendum,“ segir Ingibjörg.