Nú þegar rétt um þrír mánuðir eru í sýninguna Verk og vit 2018, er gaman að segja frá því að sýningarsvæðið er orðið nær uppselt og um 90 sýnendur eru skráðir til leiks.

 

Þrír mánuðir í Verk og vit

Verðlaunabás EFLU verkfræðistofu á Verki og viti 2016.

„Við finnum fyrir miklum áhuga á sýningunni sem sést best í því að nú þremur mánuðum fyrir opnun er sýningarsvæðið nær uppselt,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar. „Mjög vel tókst til með Verk og vit síðast og var mikil ánægja á meðal sýnenda.“ Ingibjörg segir mikinn hug í sýnendum og nú þegar séu margir byrjaðir að hanna sýningarsvæði sitt.

Samtök iðnaðarins, samstarfsaðilar sýningarinnar, benda á að það sé afar mikilvægt þegar litið er til næstu missera að ráðast í innviðaframkvæmdir á ýmsum sviðum til þess að undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Í því verkefni er byggingariðnaðurinn í lykilhlutverki og bendir Ingibjörg Gréta á að sýnendur á Verki og viti séu tilbúnir í það verkefni.

 

Sýningarsvæði Landsstólpa á Verki og viti 2016.

Þátttaka sem margborgar sig

Það hefur sýnt sig að þátttaka í stórsýningunni Verk og vit margborgar sig. Í skoðanakönnun sem Outcome-hugbúnaður gerði fyrir AP almannatengsl, framkvæmdaaðila sýningarinnar kom fram að 95% sýnenda voru ánægð með sýninguna. Þá fannst 96% þeirra að markmiðum sínum hefði verið náð með þátttöku í sýningunni.

,,Verk og vit er kjörinn vettvangur til að koma okkur á framfæri. Við erum að fara að taka þátt í okkar þriðju Verk og vit sýningu sem endurspeglar þann árangur sem við höfum fundið fyrir í kjölfar fyrri sýninga. Verk og vit er hrein byggingarsýning sem skilar sér í að stór hluti okkar markhóps skilar sér vel og mun betur en ef um blandaða sýningu væri að ræða“  segir Arnar Bjarni Eiríksson, framkvæmdarstjóri Landsstólpa.

 

Kynningar og viðburðir

Frá sýningarsvæði Kópavogs á Verki og viti 2016.

Fjölbreyttir viðburðir verða haldnir samhliða sýningunni og verða þeir kynntir þegar nær dregur. Hinsvegar stendur öllum sýnendum salur til boða fyrir kynningar og fyrirlestra sér að kostnaðarlausu. Það gefur möguleika á að setja upp kynningu á vöru og þjónustu, bjóða viðskiptavinum til sín og efla tengslin.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.
Kynningar- og upplýsingafundur verður haldinn fimmtudaginn 18. janúar næstkomandi.
Við hvetjum alla þá sem eru að skoða þátttöku að tryggja sér pláss sem fyrst. Skráning og yfirlit sýningarsvæðis má finna Hér