Fjöldi ráðstefnugesta var saman kominn í Laugardalshöll síðastliðinn föstudag þegar ráðstefnan Framtíð höfuðborgarsvæðisins – skipulag, innviðir og fjármögnun var haldin á stórsýningunni Verk og vit 2018. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Landsbankann og Samtök iðnaðarins og þar var farið yfir helstu tækifæri og áskoranir sem höfuðborgarsvæðið stendur frammi fyrir næstu árin. Vegna mikilla breytinga sem höfuðborgarsvæðið hefur tekið að undanförnu hefur mikið hvílt á byggingaiðnaðinum við uppbyggingu innviða og á sama tíma hefur átt sér stað mikil uppbygging gistirýmis fyrir ferðamenn sem koma til landsins.

„Við fundum fyrir þörfinni á ráðstefnu sem þessari þegar sýningin var síðast haldin árið 2016 en þá komust færri að en vildu. Umfangið var því meira núna en að þessu sinni fluttu átta einstaklingar erindi og voru þau bæði áhugaverð og fræðandi,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri Verks og vits.

Meðal sérfræðinga sem töluðu á ráðstefnunni voru Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, Una Jónsdóttir, hagfræðingur og deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, og Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

Erindi Ingólfs bar yfirskriftina Innviðir – ástand og framtíðarhorfur Í máli hans kom meðal annars fram að 2/3 hlutar íbúa landsins búi á höfuðborgarsvæðinu en þar sé aðeins að finna 1/3 af innviðum á Íslandi. Einnig kom fram að fjárfesting hafi verið undir þörf og meðaltali vegna hruns en þenslan síðustu árin hafi farið í annað en innviðagerð.

Sýningin Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum,
hönnuðum og ráðgjöfum. Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru
atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.