Um 95% sýnenda sögðust ánægð með sýninguna Verk og vit 2016 í viðhorfskönnun meðal sýnenda sem unnin var af Outcome könnunum fyrir AP almannatengsl. Þar kom einnig fram að allir sýnendur telja grundvöll fyrir því að Verk og vit verði haldin aftur. Sýningin var haldin í þriðja sinn dagana 3.–6. mars sl. Um 23.000 gestir sóttu sýninguna í Laugardalshöll, þar sem rúmlega 90 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu vörur sínar og þjónustu.

Könnun Outcome var send til allra sýnenda í mars, að sýningunni lokinni, og var svarhlutfall um 70%. Meðal annarra helstu niðurstaðna var að 95% sýnenda töldu sig hafa náð markmiðum sínum með þátttökunni mjög vel eða frekar vel.

Eins og sjá má af yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem telja grundvöll fyrir því að Verk og vit verði haldin aftur hefur sýningin fest sig í sessi sem lykilviðburður í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á Íslandi. Flestir virðast jafnframt hlynntir því að láta tvö ár líða milli sýninga, því 70% svarenda sögðst fylgjandi því að næsta sýning yrði haldin árið 2018.

Góður rómur var jafnframt gerður að þeim tíma sem sýningin var opin á, en um 82% voru ánægð með fyrirkomulagið. Sýningin var opin fagaðilum á fimmtudegi og föstudegi, en almenningur boðinn velkominn laugardag og sunnudag.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar var AP almannatengsl og samstarfsaðilar voru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Landsbankinn og LNS Saga.