Mikill áhugi fagaðila og almennings á byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum sýndi sig í Laugardalshöll um helgina, því um 23.000 gestir mættu á stórsýninguna Verk og vit sem þar var haldin dagana 3.–6. mars. Alls tóku tæplega 100 sýnendur þátt og kynntu fyrir gestum vörur sínar og þjónustu. Þetta eru mun fleiri gestir en komu á Verk og vit 2008, en þá heimsóttu 18.000 gestir sýninguna.

„Það er greinilegt að Verk og vit hefur skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd. Við vissum fyrir að fagaðilar yrðu áhugasamir en það er augljóst að almenningur hefur líka áhuga á að skoða það sem fyrirtæki í þessum geira hafa fram að færa.  Það sjáum við meðal annars á þeim mikla fjölda sem lagði leið sína í Laugardalshöll um helgina. Sýningin tókst mjög vel og sýnendur lögðu sig alla fram,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem opnaði sýninguna formlega síðastliðinn fimmtudag. Við opnunina tóku einnig til máls Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Í ræðu borgarstjóra kom meðal annars fram að ómetanlegt samtal myndi eiga sér stað á Verk og vit. „Þar munu uppbyggingaraðilar, sveitarfélögin og aðrir þátttakendur í samtalinu bera sig saman, kynna verkefni sín og vörur og taka með því saman þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er,“ sagði Dagur.

Sýningin Verk og vit er ætluð fagaðilum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum. Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið,Reykjavíkurborg,Samtök iðnaðarins, Landsbankinn og LNS Saga.