Landsbankinn hefur verið samstarfsaðili Verks og vits frá upphafi. Í viðtali í fylgiblaði Viðskiptablaðsins um Verk og vit segir Davíð Björnsson, forstöðumaður mannvirkjafjármögnunar og ferðaþjónustu á fyrirtækjasviði Landsbankans, reynslu bankans af þátttöku í sýningunni vera mjög góða. Hann segir að fyrir bankann sé þetta einstakt tækifæri til að hitta breiðan hóp viðskiptavina, sýna hvað bankinn hefur fram að færa en ekki síður að sjá og heyra hvað aðrir eru að fást við.

Sterk staða í mannvirkjafjármögnun
„Landsbankinn hefur lengi haft mjög sterka stöðu í hvers konar mannvirkjafjármögnun. Bankinn hefur verið umsvifamestur í fjármögnun nýrra íbúðabygginga og hótelbygginga. Um síðustu áramót var bankinn með yfir 90 stór fjármögnunarverkefni á þessu sviði í gangi á vegum um 60 verktakafyrirtækja. Yfir 80 verkefnanna snúa að byggingu nýs íbúðarhúsnæðis og skila verkefnin um 2.900 íbúðum inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Akranesi og Reykjanesbæ á árunum 2018 og 2019,“ segir Davíð. „Í ljósi þessarar stöðu sinnar leggur Landsbankinn mikla áherslu á að vera sýnilegur og aðgengilegur á sýningunni. Það er mikilvægt fyrir okkur að hitta einstaklinga, fyrirtæki og hagsmunaaðila í greininni, fara yfir málin og ræða áhugaverð verkefni“.

Breitt vöru- og þjónustuframboð
Davíð segir Landsbankann ekki aðeins bjóða verktökum margvíslegar fjármögnunarleiðir vegna mannvirkjaframkvæmda, heldur standi fyrirtækjum og einstaklingum einnig til boða hagstæð bíla- og tækjafjármögnun. „Í boði eru bílalán, bílasamningar og kaupleiga, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Íbúðalán til einstaklinga eru fjölbreytt og sniðin að ólíkum þörfum og markmiðum viðskiptavina. Í boði eru samkeppnishæf lán, bæði verðtryggð og óverðtryggð, og er lánað fyrir allt að 85% af verðmæti fasteigna,“ útskýrir hann.

Verk og vit
Davíð bendir jafnframt á að ráðgjöf og þjónusta í tengslum við fjölbreytt vöruval og mismunandi þarfir viðskiptavina er í höndum reyndra sérfræðinga bankans. Þeir verða á sýningarbás Landsbankans alla sýningardagana, tilbúnir til skrafs og ráðagerða um stór jafnt sem smá verkefni.