Guðni Sigfússon, framkvæmdastjóri Sýningakerfa, er samstarfsaðili okkar en hann hefur áratugareynslu af því að undirbúa og setja upp sýningar eins og Verk og vit 2016.  Við fengum Guðna til að gefa sýnendum hagnýt ráð um mikilvæg atriði varðandi undirbúningsvinnu.

Guðni segist sérstaklega vilja hvetja fólk til að vera tímanlega í sambandi við hönnuði, ljósmyndara og prentsmiðjur varðandi framleiðslu prentgripa og grafíska vinnslu fyrir sýningarbása. Þar séu fjölmörg atriði sem huga þurfi að og mikilvægt sé að útvega myndir frá samstarfsaðilum og semja við rétthafa, hönnuði og prentsmiðjur í tæka tíð.

„Margir hafa lent í tímahraki með þessa þætti,“ segir Guðni. „Stundum kemur það líka í ljós á síðustu stundu að rafmagnsþörf í sýningarbás hefur verið vanmetin. Sum tæki þurfa nefnilega ótrúlega mikið rafmagn þótt það fari ekki mikið fyrir þeim. Þetta vinnst nú yfirleitt allt að lokum en það er gott að forðast óþarfa stress á síðustu metrunum.“

Annars er undirbúningur fyrir Verk og vit 2016 á fullri ferð hjá Sýningakerfum og allt gengur þar samkvæmt áætlun enda vanir menn á ferð. Um leið og við kveðjum Guðna Sigfússon biður hann okkur að minna á að þeir sem ætla að teppaleggja gólfsvæði sín með litríkum teppaflísum þurfi að vera í sambandi sem fyrst svo hægt verði að leggja inn pantanir hjá birgjum í tæka tíð.