Byko hefur fyrst framleiðenda hlotið Svansvottun á gluggum sem framleiddir eru sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Það er margt spennandi í gangi í fyrirtækinu, en það reisir nú nýjar höfuðstöðvar í Breiddinni. „Þetta samræmist vegferð okkar í sjálfbærnimálum og með þessu stóra skrefi erum við að senda skýr skilaboð um að BYKO er markvisst að vinna í því að draga úr kolefnisspori byggingaiðnaðarins. Svanurinn er áreiðanlegt, norrænt umhverfismerki sem allir þekkja og er leiðandi á sínu sviði á heimsvísu. Svansvottunin felur í sér lífsferilsgreiningu og staðfestingu á gæðum vörunnar, meðal annars út frá líftímasjónarmiði og áhrifum hennar á umhverfi og heilbrigði fólks,“ segir Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO.

Mikilvægi þess að hafa vandaða glugga í íslenskum byggingum er óumdeilt og þeir verða að standast kröfur um ísetningu og slagregnspróf. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur enda uppi áform um að auka eftirlit með gluggum sem full þörf er á miðað við þann fjölda tjóna sem rekja má til þess að gluggar hafi ekki uppfyllt kröfur um gæði og ísetningu.

Framleitt glugga og hurðir í 32 ár
BYKO hefur framleitt glugga og hurðir í 32 ár og þessi viðbót er rökrétt framhald þeirrar stefnu fyrirtækisins að bjóða ávallt bestu mögulegu vöruna á markaðnum á hverjum tíma. Ferlið er búið að vera langt og strangt því uppfylla þurfti fjölmörg skilyrði um efni og aðferðir við framleiðsluna með mælingum á rannsóknarstofu, útreikningum, efnisgreiningum og fleira.

Svansvottuðu gluggarnir eru virkniprófaðir, þeir hafa langan endingartíma og valda hverfandi loftslagsáhrifum, þökk sé litlu orkutapi. Þeim fylgja nákvæmar leiðbeiningar um meðferð, allt frá afhendingu til notkunar og flokkunar að líftíma þeirra liðnum.

Hlutu íslensku ánægjuvogina sjöunda árið í röð
Íslenska ánægjuvogin kynnti á dögunum niðurstöður mælinga á ánægju viðskiptavina fjörutíu íslenskra fyrirtækja í fimmtán atvinnugreinum á árinu 2023. Í flokki byggingavöruverslana hlaut BYKO hæstu einkunnina með marktækum mun sjöunda árið í röð og hefur því sigrað óslitið í þeim flokki frá upphafi mælinga. „Íslenska ánægjuvogin er einn af okkar mikilvægustu mælikvörðum og horfir beint inn í framtíðarsýnina okkar sem snýr að því að „Skapa bestu heildarupplifun viðskiptavina“. Við vinnum markvisst að því alla daga að gera betur og það er óendanlega mikilvægt fyrir okkur í BYKO að uppskera svona áþreifanlega eins og til er sáð. Mín staðfasta trú er að árangur snúist fyrst og fremst um fólk sem myndar öfluga liðsheild. Augljósasta leiðin að góðu fólki er að vera góður vinnustaður. Við viljum laða fram það allra besta hjá fólki, alla daga.

Það er BYKO mikill heiður að taka við þessari viðurkenningu og við erum stolt af þeirri staðfestu sem endurspeglast í þessum margendurtekna árangri,“ segir Sigurður.

„Við erum þakklát starfsfólki okkar fyrir þeirra frábæru frammistöðu sem og viðskiptavinum okkar fyrir að skynja metnaðinn sem liggur að baki starfseminni og að verðlauna okkur með þessari kærkomnu einkunnargjöf. Við getum nú með stolti lýst því yfir að eiga ánægðustu viðskiptavinina á þeim markaði sem við keppum á en um leið er þetta okkur hvatning til að gera enn betur til að standa undir væntingum og tryggð viðskiptavina okkar,“ segir Sigurður.

Fjölmargar nýjungar litið dagsins ljós
BYKO fagnaði 60 ára afmæli á árinu 2022 og að sögn Sigurðar hafa fjölmargar nýjungar litið dagsins ljós á síðustu misserum; má þar nefna sjálfsafgreiðslukassa með reikningsviðskiptum, rafrænt BYKO-kort, rafrænt beiðnakerfi, stórbætta vefverslun, gagnadrifnar lausnir og rafræn mælaborð.

„Heildræn stefna BYKO, þar sem viðskiptavinurinn er miðja alls, gerir vörumerkið einstakt og aðgreinir okkur frá samkeppninni því við viljum bjóða bestu heildarupplifun viðskiptavinarins, bæði í framkvæmdum og við fegrun heimilisins. Mikil áhersla er lögð á gagnadrifna markaðssetningu sem byggir á kauphegðun og raunþörfum viðskiptavina. Slagorðið „Gerum þetta saman“ og vörumerkjaloforðið „Það er einfaldast að versla í BYKO“ eru eftir sem áður leiðarljós í öllu markaðsstarfi okkar. Við höfum gert þetta saman í 60 ár og við hlökkum til framtíðarinnar,“ segir Sigurður.

Nýjar höfustöðvar rísa
Það er margt spennandi í gangi hjá BYKO. Eitt af stærstu verkefnunum er nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins sem eru nú í byggingu í Breiddinni. Húsið verður fimm hæðir, byggt úr límtré og CLT timbureiningum frá BYKO og framkvæmdin er samkvæmt BREEAM-stöðlum um sjálfbærni og vistvæna hönnun. Nýbyggingin verður rúmlega 2 þúsund fermetrar að stærð. Fasteignafélagið Smáragarður sér um framkvæmdina en Tendra arkitektúr og verkfræðistofan VSB sjá um hönnun. Verklok eru febrúar 2024.

„BYKO hefur verið með höfuðstöðvar í óbreyttri mynd á Skemmuveginum frá 1988, en hins vegar athafnasvæði frá 1980, og þetta er þess vegna stór áfangi í sögu fyrirtækisins. Að byggja höfuðstöðvarnar samkvæmt BREEAM mun styrkja okkur enn frekar í þeirri vegferð sem við erum á þegar kemur að vistvottunarkerfum og vistvænum valkostum,“ segir Sigurður. Hann segist jafnframt hlakka til að taka þátt í stórsýningunni Verk og vit í apríl.

„BYKO hefur verið með á Verk og vit frá upphafi og fyrirtækið er einn af samstarfsaðilum sýningarinnar sem er gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskan byggingariðnað og allt honum tengt.“