Byko hlaut Sýningarverðlaun Verk og vit 2022 og Verkfærasalan hlaut verðlaunin Athyglisverðasta sýningarsvæðið. Stórsýningin Verk og vit er nú haldin í fimmta sinn dagana 24.-27. mars í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal.

Um 100 sýnendur taka þátt í sýningunni en mikill metnaður var lagður í sýningarsvæðin. Að venju voru veitt verðlaun fyrir Athyglisverðustu sýningarsvæðin sem og Sýningarverðlaun Verk og vit 2022. Guðmundur Rafnar Óskarsson, dúklagningarmeistari og kennari Tækniskólans, hannaði og útbjó verðlaunagripina.

Sýningin í ár er glæsileg og skemmtileg og það er ljóst að sýnendur lögðu sig alla fram við gerð sýningarsvæða sinna og höfðu greinilega gaman af. Ég fann hjá sýnendum að það var mikil þörf á að halda stórsýningu eins og þessa. Umhverfismálin hafa verið áberandi hjá fyrirtækjum á sýningunni og fjöldi sýningarsvæða ber þess merki. Sýningin í ár er heilt yfir mjög sterk og efnismikil, svo þetta var erfitt val, en vinningshafarnir eru sannarlega vel að verðlaununum komnir, segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit 2022 og formaður dómnefndar.

Í flokknum; Athyglisverðasta sýningarsvæðið, var m.a. metið: form, grafík, litasamsetning og hvort sýningarsvæðið endurspeglaði viðkomandi starfsemi og einnig hversu athyglisvert sýningarsvæðið væri. Auk þess var tekið tillit til aðgengis, klæðnaðar, þjónustu og viðmóts  starfsfólks.

Verkfærasalan hlaut verðlaunin Athyglisverðasta sýningarsvæðið á Verk og vit 2022. Annað sæti hlaut Tækniskólinn og það þriðja Reykjavíkurborg og Kópavogur.

Að mati dómnefndar, þótti sýningarsvæði Verkfærasölunnar mjög svo lýsandi fyrir þeirra starfsemi og vörurnar fanga athygli gesta strax. Sýningarmunir voru aðgengilegir og vel sýnilegir og höfðuðu vel til gesta. Í markaðsstarfi var einnig hugað að umhverfisvænum lausnum.

Í flokknum; Sýningarverðlaun Verk og vit 2022 er horft til þess sama og í fyrri flokk, sem og glæsileika, útfærslu lýsingar og heildarhönnunar.

Það er mikill heiður að við skyldum vera valin athyglisverðasta sýningarsvæðið á þessari glæsilegu sýningu sem hefur verið mjög mikilvæg fyrir okkur. Þetta er í þriðja skipti sem við tökum þátt á Verk og vit og þetta er alltaf jafn áhugaverð og skemmtileg sýning. Það er gott að hitta viðskiptavini á sýningunni og kynna þar nýjungar frá birgjum okkar, segir Marteinn Guðberg Þorláksson, innkaupa- og markaðsstjóri Verkfærasölunnar.

Byko hlaut Sýningarverðlaun Verk og vit 2022. Annað sætið hlaut Element og það þriðja hlaut Redder.

Við erum afar stolt og ánægð með að hljóta Sýningarverðlaun Verk og vit. Við lögðum mikinn metnað í verkefnið og sýnum mjög breitt vöruúrval á sýningarsvæðinu sem er byggt úr okkar vörum. Allir helstu sérfræðingar BYKO hafa staðið vaktina hér og aðstoðað gesti og gangandi varðandi ráðgjöf og upplýsingar. Það er sérlega gaman að vera hér á sýningunni. Það skín mikil gleði og hugmyndaflug frá öllum sýnendum og það hefur smitað út frá sér til gesta. Það var greinilega orðið mjög tímabært að halda svona stórsýningu, segir Jóna Guðrún Kristinsdóttir, verkefnastjóri framþróunarsviðs BYKO.

Dómnefnd skipuðu þau Elísabet Sveinsdóttir markaðssérfræðingur, Arnar Gauti Sverrisson, upplifunnarhönnuður, Borgar H. Árnason grafískur hönnuður og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri.