Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, leiðir samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll. Verkefnið snýr að því að vistvænt atvinnusvæði rísi í Helguvík-Bergvík.

Á vormánuðum 2023 kynnti Kadeco nýja þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar sem gengur undir nafninu K64. Nafnið var valið sem regnhlífarhugtak yfir þann fjölda verkefna sem hrint verður í framkvæmd á næstu árum og áratugum og vísar til staðsetningar Suðurnesja á 64. breiddargráðu.

,Þróunaráætluninni er ætlað að vera drifkraftur atvinnustarfsemi á svæðinu og styrkja Reykjanesið sem aðlaðandi stað fyrir fólk til að búa á, starfa og heimsækja. Keflavíkurflugvöllur er þar mikilvægur en staðsetningin á milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við flugvöllinn sjálfan og Helguvíkurhöfn eru ótvíræðir kostir, ekki einungis fyrir samfélagið á Suðurnesjum heldur einnig fyrir samfélagið á Íslandi. Græn orka, sveigjanleiki og aðlögunar- og samstarfshæfni samfélagsins eru sömuleiðis mikilvægir þættir í því að skapa einstök tækifæri,“ segir Bergný Jóna Sævarsdóttir, sjálfbærnistjóri Kadeco og verkefnisstjóri. Félagið er með aðsetur á Ásbrú í húsnæði sem áður tilheyrði Varnarliðinu.

,,Stærstu verkefnin í K64 sem þegar hafa verið skilgreind og hafist handa við eru uppbygging íbúasvæðis á Ásbrú í Reykjanesbæ og uppbygging á vistvænu athafnasvæði við Helguvíkurhöfn. Samkvæmt rammaskipulagi er gert ráð fyrir að íbúar Ásbrúar verði um 15.000 árið 2050 og því er unnið að því að deiliskipuleggja íbúða- og iðnaðarsvæði með það að markmiði að framkvæmdir hefjist sem fyrst. Ásbrú er ört stækkandi íbúahverfi í Reykjanesbæ sem hefur alla burði til þess að verða þétt og aðlaðandi með góðu aðgengi að fjölbreyttri þjónustu eins og áætlanir K64 gera ráð fyrir,“ segir Bergný.

Nýta tækifærin Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll
Svæðið við Helguvíkurhöfn og svæðið sem í daglegu tali er nefnt HelguvíkBergvík tilheyra sveitarfélögunum Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ, ásamt Reykjaneshöfn og íslenska ríkinu. Bergný segir að þróunaráætlunin leggi áherslu á að svæðið byggist upp með vistvænum áherslum og nýti tækifærin við tvær hafnir, Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll.

,,Nú þegar eru verkefni farin af stað meðal annars með uppbyggingu „Græns iðngarðs“ sem nú rís í yfirgefnum kerskálum álversins sem þar átti áð rísa. Landeigendur og sveitarfélögin hafa tekið höndum saman og er nú hafin samvinna um að skipuleggja svæðið með það að markmiði að þar rísi öflugt athafnasvæði þar sem starfsemi nýtur samvistar hver af annarri í grænu hringrásarumhverfi. Aðrar áherslur sem horft er til eru m.a. að svæðið skapi verðmæt störf, byggi enn frekar upp atvinnulíf á svæðinu og styðji við nærliggjandi sveitarfélög. Við hjá Kadeco, ásamt samstarfsaðilum okkar Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, hlökkum til þess að taka þátt í Verk og vit í fyrsta skipti og eiga samtöl um þau fjölmörgu tækifæri sem í boði eru á Suðurnesjum,“ segir Bergný enn fremur.