Stórsýningin Verk og vit, ásamt Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins, bauð 10. bekkingum að heimsækja sýninguna, föstudaginn 9. mars. Markmið heimsóknarinnar var að kynna fyrir nemendum atvinnumöguleika iðnaðarins og þau tækifæri sem Tækniskólinn hefur upp á að bjóða. Heimsóknin var á skólatíma en alls mættu um 1.200 hressir krakkar og að lokinni kynningu Tækniskólans var þeim boðið að skoða sýninguna með kennurum og nemendum skólans.
„Það skiptir öllu máli fyrir skólann og atvinnulífið í heild sinni að fá krakka á þessum aldri til að koma og stíga inn í þennan heim sem Verk og vit er. Skólinn hefði aldrei haft tækifæri til að hitta þessa 1.200 nemendur annars staðar en á sýningunni. Það er ómetanlegt,“ segir Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar hjá Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins.
Sýnendur voru meðvitaðir um mikilvægi heimsóknarinnar og kynntu starfsemi sína og bentu á fjölbreytilega iðnmenntun í tengslum við hana.
„Það var virkilega gaman að fylgjast með hversu áhugasamir nemendurnir voru. Spurningarnar sem sýnendur fengu voru ekki fáar og lögðu þeir sig fram um að fræða krakkana um iðnaðinn. Svipuð nemendakynning var á Verki og viti árið 2016 og er gaman að segja frá því að haustið eftir var metaðsókn í Tækniskólann,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.