Stórsýningin Verk og vit verður haldin dagana 19.-22. mars 2026 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Þetta verður í sjöunda skiptið sem sýningin er haldin og því er óhætt að segja að Verk og vit sé orðin fastur punktur í tilveru þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð. Jafnframt verður stórafmæli sýningarinnar fagnað, því 20 ár verða liðin frá fyrstu sýningunni sem fram fór vorið 2006.
Verk og vit er ætlað að styrkja tengsl milli fagaðila og auka vitund almennings um starfsemi, vörur og þjónustu þeirra sem starfa í þessum greinum. Mikill áhugi hefur jafnan verið á Verk og vit og komu um 25.000 gestir á sýninguna nú í vor, sem var svipaður fjöldi og á sýningunum þar á undan. Þá hafa sýnendur verið afar áhugasamir um þátttöku og sem dæmi hafði allt sýningarsvæði selst upp rúmu hálfu ári fyrir síðustu sýningu.
Rúmlega 100 sýnendur tóku þátt í Verk og vit 2024 og voru þar m.a. byggingaverktakar, verkfræðistofur, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki, framleiðendur, menntastofnanir, fjármálafyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög. Í viðhorfskönnun sem könnunarfyrirtækið Zenter gerði meðal sýnenda sögðust 100% þeirra sem svöruðu hafa verið ánægðir með sýninguna og jafnframt sögðust allir sem svöruðu hafa náð markmiðum sínum með þátttöku í sýningunni.
Samhliða sýningunni hefur verið haldin ráðstefna og aðrir viðburðir þar sem fjallað er um byggingariðnað, skipulagsmál, mannvirkjagerð og menntamál frá ýmsum sjónarhornum.
„Það hefur verið frábært að sjá hvernig Verk og vit hefur fest sig í sessi sem nokkurs konar uppskeruhátíð í byggingariðnaði og skyldum greinum síðustu 20 árin. Reynsla og metnaður sýnenda verður meiri með hverri sýningunni sem skilar sér í skemmtilegri viðburði fyrir alla, bæði þá sem starfa í faginu og almenning. Við erum mjög spennt að hefja undirbúninginn fyrir afmælissýninguna og stefnum að sjálfsögðu að því að hún verði glæsilegri en nokkru sinni fyrr,“ segir Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla.
AP almannatengsl eru framkvæmdaraðili sýningarinnar, en samstarfsaðilar eru: mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Byko og Landsbankinn.