Stórsýningin Verk og vit hefst í dag í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Sýningin er tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum, mannvirkjagerð og tengdum greinum. Fyrstu tvo sýningardagana er hún opin fagaðilum en um helgina er almenningur einnig boðinn velkominn.

Alls eru 90 sýnendur skráðir til leiks og því viðbúið að fjölbreytileikinn verði allsráðandi í Höllinni. Fyrirtækin sem taka þátt koma úr ýmsum geirum atvinnulífsins og má þar til dæmis nefna byggingarverktaka, verkfræðistofur, tækjaleigur, skóla, fjármálafyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög.

„Í dag verða Landsbankinn og Samtök iðnaðarins með áhugaverða ráðstefnu um mannvirkjagerð á Íslandi. Eins verður Michael Hygild Toxverd, sölustjóri Hikvison á Norðurlöndum, með fyrirlestur um tækninýjungar í myndeftirliti og öryggismyndavélum. Svo er auðvitað margt að sjá enda sýningin öll komin upp og er hin glæsilegasta,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

Síðasta sýning tókst mjög vel í alla staði. Um 92% sýnenda þá töldu grundvöll fyrir því að hún yrði haldin aftur. Nærri 90% voru mjög ánægð með sýninguna og um 18.000 gestir mættu.

„Sýningin sem verður haldin nú gefur þeim fyrri ekkert eftir svo ég er mjög bjartsýn og býð fólk velkomið í Laugardalshöll,“ segir Ingibjörg Gréta.

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, LNS Saga, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.

Allar nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.verkogvit.is.