Stórsýningin Verk og vit verður haldin í fjórða skipti dagana 8.–11. mars næstkomandi í Laugardalshöll. Um 120 fyrirtæki og stofnanir taka þátt að þessu sinni og kynna vörur sínar og þjónustu. Á Verk og vit 2016 var slegið aðsóknarmet en alls sóttu þá 23.000 gestir sýninguna.
Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum.
Fyrstu tvo dagana er sýningin opin fyrir fagaðila, en seinni tvo dagana, laugardag og sunnudag, er almenningur einnig boðinn velkominn.
„Verk og vit er fyrst og fremst fagsýning. Hún felur í sér einstakt tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, til að kynna vörur sínar og þjónustu. Hún er kjörinn vettvangur fyrir sýnendur til að styrkja tengslanetið, efla samband við núverandi viðskiptavini og bæta nýjum í hópinn,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.
Fjöldi viðburða verður í tengslum við sýninguna og á föstudeginum verður ráðstefna um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu. „Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á framtíð höfuðborgarsvæðisins þegar horft er til skipulags, innviða og fjármögnunar,“ segir Ingibjörg Gréta.
Sýningarsvæði Verks og vits er um 5.000 fermetrar og því af mörgu að taka fyrir gesti. Á meðal sýnenda má nefna fjármálafyrirtæki, húsaframleiðendur, verkfræðistofur, tækjaleigur, bílaumboð, hugbúnaðarfyrirtæki og menntastofnanir.
„Það verður margt spennandi í boði, því metnaður sýnenda er mikill. Hér rís heilt þorp, það er allt á fullu í Höllinni, þar sem allir leggja sig fram og við vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Ingibjörg Gréta og bætir við að hægt sé að kaupa miða við innganginn.
Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.