Undirbúningur fyrir stórsýninguna Verk og vit 2020 gengur vel. Um 75% sýningarsvæðis er þegar selt þótt enn séu fjórir mánuðir í sýninguna. Verk og vit verður haldin í fimmta sinn dagana 12.-15. mars nk. í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal.
Að sögn Elsu Giljan Kristjánsdóttur sýningarstjóra Verk og vit er alltaf gaman að sjá þegar undirbúningurinn fer vel af stað. Það veit á áhugaverða sýningu. Verk og vit hefur skipað sér sess sem vettvangur fyrir aðila í bygginga- og mannvirkjageiranum að hittast og styrkja viðskiptasamböndin og afla nýrra, kynna vörur og þjónustu ásamt því að ræða málin, sem meðal annars skýrir þessa góðu þátttöku.
Bygg Reis Deg, ein stærsta byggingarsýning Noregs, var haldin í síðasta mánuði. Sýningin er haldin á tveggja ára fresti spannar allan byggingar- og mannvirkjageirann og er að sögn Elsu Giljan sú sýning sem er hvað líkust Verk og vit. Nokkur erlend fyrirtæki, sem voru með sýningarrými á Bygg Reis Deg, verða einnig á Verk og vit 2020. Þrjú íslensk fyrirtæki, sem verða á Verk og vit 2020, fóru gagngert á Bygg Reis Deg í október til að fá innblástur fyrir sýningarsvæði sín á Verk og vit 2020, kynna sér nýjar vörur og þjónustu ásamt því að heimsækja birgja.
Aðsóknarmet var slegið á síðustu sýningu Verk og vit árið 2018 en þá komu alls 25.000 gestir á sýninguna þar sem um 110 sýnendur tóku þátt. Um 94% sýnenda sögðust ánægð með Verk og vit í viðhorfskönnun og þar kom einnig fram að allir sýnendur töldu grundvöll fyrir að Verk og vit verði haldin aftur. Meðal annarra helstu niðurstaða var að 90% sýnenda mynduðu viðskiptatengsl og 85% töldu sig hafa náð markmiðum sínum með sýningunni.
Verk og vit er ætluð framleiðendum og innflytjendum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum, menntastofnunum og ráðgjöfum.