Unnið hefur verið af kappi að uppsetningu sýningarinnar Verk og vit sem hefst á morgun. Það er gaman að sjá hvað sýnendur leggja mikinn metnað í sýningarsvæðin og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir sýningarstjóri. Breiddin er mikil á sýningunni en þar verða gamalgróin og vel þekkt fyrirtæki í bland við ný.
Stórsýningin Verk og vit verður haldin dagana 24.-27. mars 2022 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Þetta er í fimmta sinn sem sýningin er haldin og sem fyrr er hún einkum ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar. Mikill áhugi er á sýningunni en um 100 fyrirtæki og stofnanir munu þar kynna vörur sínar og þjónustu.
Meðal sýnenda á Verk og vit eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, menntastofnanir, fjármála- og ráðgjafafyrirtæki, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki og sveitarfélög svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu tveir dagar sýningarinnar, fimmtudag og föstudag, eru hugsaðir fyrir fagaðila en seinni tvo dagana, laugardag og sunnudag er almenningi einnig boðið að heimsækja sýninguna.
Sýningin Verk og vit hefur sannað sig sem mikilvægur vettvangur fyrir aðila í bygginga- og mannvirkjageiranum til að hittast, styrkja viðskiptasambönd og mynda ný, kynna vörur og þjónustu og nýjungar, ásamt því að ræða málin.
Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru Innviðaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.