Dagana 19.–22. mars 2026 verður stórsýningin Verk og vit haldin í sjöunda sinn í Laugardalshöllinni. Sýningin hefur verið einn mikilvægasti viðburður mannvirkja- og byggingariðnaðarins á Íslandi frá upphafi, en nú eru tuttugu ár liðin frá því hún var fyrst haldin.

Sýningin hefur að jafnaði verið haldin annað hvert ár, þó með undantekningum þar sem aðstæður í þjóðfélaginu urðu til þess að fresta þurfti sýningum. Í gegnum árin hefur Verk og vit vaxið og dafnað og gegnt lykilhlutverki í því að efla tengsl, miðla þekkingu og styðja við þróun innan iðnaðarins.

Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar frá upphafi, segir að markmið hennar hafi ávallt verið skýrt: að auka tengslamyndun og viðskiptasambönd milli fyrirtækja og fagaðila og auka með því vitund almennt um mikilvægi mannvirkja- og byggingariðnaðarins.

„Sýningunni er ætlað að fræða markaðinn og sameina hann á einum stað, þannig að fyrirtæki og gestir geti hámarkað ávinning sinn í formi fræðslu, upplifunar, þjónustu og tengslamyndunar,“ segir Elsa Giljan. Hún bætir við að sýningarnar hafi ávallt einkennst af fjölbreyttum hópi sýnenda, sem spannar alla helstu þætti tengda mannvirkjagerð, byggingariðnaði og skyldum greinum.

Tengsl, þróun og nýsköpun

Í störfum sínum sem sýningarstjóri hefur Elsa oft orðið vitni að mikilvægi sýningarinnar fyrir þróunarvinnu innan fyrirtækja.

„Það er algengt að mikil þróunarvinna fari fram í aðdraganda sýningarinnar,“ segir hún. „Þar að auki hafa ótal samstarfsverkefni milli fyrirtækja orðið til á sýningunni sjálfri. Fjölmörg ný fyrirtæki hafa jafnframt tekið skrefið, tekið þátt og þannig fengið dýrmætan aðgang að markaðnum og lykiltengiliðum á einum stað.“

Áhersla hefur jafnframt verið lögð á að opna sýninguna fyrir erlendum fyrirtækjum. Fjölgun erlendra sýnenda og gesta hefur verið greinileg undanfarin ár, og segja má að Verk og vit hafi fest sig í sessi sem vettvangur þar sem íslensk fyrirtæki og erlend samstarfsaðilar geta mætt og miðlað hugmyndum, lausnum og nýjungum sín á milli.

„Markvisst hefur verið unnið að því að efla tengsl íslenskra fyrirtækja við erlenda samstarfsaðila. Flestir erlendir sýnendur koma frá Norðurlöndunum, en einnig hafa fyrirtæki frá Eystrasaltsríkjunum verið að sækja á íslenskan markað. Veðurfarsleg líkindi skipta hér máli, það skapar traustan grunn fyrir samstarf og lausnir sem henta íslenskum aðstæðum,“ útskýrir Elsa Giljan.

Vettvangur fyrir samtal og samvinnu

Samhliða sýningunum hafa ráðstefnur og fjölbreyttir viðburðir farið fram þar sem byggingariðnaður, skipulagsmál, mannvirkjagerð og menntamál hafa verið til umfjöllunar. Það sama á við sýninguna Verk og vit 2026, þegar um 100 sýnendur munu kynna vörur og þjónustu sína í Laugardalshöll. Síðustu tvær sýningar sóttu samtals um 25.000 gestir, sem er sá fjöldi sem höllin rúmar fyrir viðburð af þessari stærðargráðu.

Meðal sýnenda hafa verið byggingaverktakar, verkfræðistofur, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki, menntastofnanir, fjármálafyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög. Þessi fjölbreytileiki endurspeglar breiddina í iðnaðinum og sýnir mikilvægi þess að bjóða upp á sameiginlegan vettvang þar sem fagfólk getur deilt reynslu, frætt og dýpkað samstarf.

Spegill iðnaðarins

Aðspurð um þróun sýningarinnar í gegnum tíðina, segir Elsa að hver sýning hafi í raun verið ákveðin speglun á stöðu markaðarins  á hverjum tíma fyrir sig.

„Sýningin hefur alltaf endurspeglað þann veruleika sem iðnaðinn býr við hverju sinni. Hún hefur verið vettvangur fyrir stöðugreiningu, samtal og lausnaleit á breiðum grundvelli,“ segir Elsa. „Þegar litið er yfir síðustu tuttugu ár má með sanni segja að Verk og vit hafi sannað gildi sitt sem lykilvettvangur fyrir mannvirkja- og byggingariðnaðinn.“

Að hennar mati hefur sýningin gegnt sérstaklega mikilvægu hlutverki á öllum tímum. Í sögulegu ljósi hefur sýningarhald ítrekað reynst eitt það öflugasti vettvangurinn til að efla samstarf, sameina aðila og uppbyggingu. Sýningar skapa vettvang til að samstilla aðgerðir og halda rekstri gangandi.

„Þegar á móti blæs skiptir öllu máli að sameinast, styrkja tengsl og finna sameiginlegar lausnir. Í því samhengi hefur Verk og vit reynst ómetanlegur vettvangur til að styrkja samstöðu, samvinnu og áframhaldandi uppbyggingu,“ segir Elsa Giljan að lokum.

Mynd: Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit.