Veglegt 80 blaðsíðna sýningarrit Verk og vit er komið út. Ritið fylgdi Viðskiptablaðinu 17. apríl og verður einnig í boði á sýningunni í Laugardalshöll. Þar má finna ítarlega umfjöllun um sýninguna ásamt áhugaverðum greinum sem tengjast byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð.

Í sýningarritinu er m.a. rætt við Elsu Giljan, sýningarstjóra Verk og vit, sem segir ánægjulegt hversu fjölbreyttir sýnendur eru að þessu sinni. Hún nefnir sérstaklega aukna þátttöku erlendra fyrirtækja, sem hún telur veita sýningunni enn meira vægi bæði fyrir íslenska sýnendur sem og gesti hennar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í viðtali að mikill kraftur búi í iðnaðinum. Framlag þeirra sem hafa unnið þrekvirki í baráttunni við náttúruöflin á Reykjanesi sé augljóst dæmi um það. Sigurður telur jafnframt mikilvægt að auka fjárfestingu í innviðum landsins, bæði í nýfjárfestingu og endurbótum.

Þá er rætt við Bergnýju Jónu Sævarsdóttur, sjálfbærni- og verkefnisstjóra Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem segir frá metnaðarfullri áætlun um uppbyggingu og framtíðarsýn fyrir svæðið við flugvöllinn. Hún segir frá þróunaráætlun Kadeco, sem ber heitið K64, sem hún telur að muni styrkja Suðurnesin í heild sinni.

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Terra, lýsir því hvernig Terra umhverfisþjónusta leiðbeinir og hjálpar fyrirtækjum og sveitarfélögum um allt land við að bæta umgengni sína við náttúruna. Meginþjónusta fyrirtækisins felst í að safna og flokka efni frá viðskiptavinum.

Að auki er rætt við Kjartan Long, verkefnisstjóra á fyrirtækjasviði BYKO, en fyrirtækið hefur verið leiðandi í innleiðingu á umhverfisstefnu. Hann dregur fram hve mikið BYKO hefur lært síðustu misseri af áhugaverðum og krefjandi verkefnum sem krafist hafa BREEM og Svansvottunar.

Hægt er að sækja sýningarritið á stafrænu formi hér að neðan.

LESA BLAÐIÐ