Mikil og góð stemmning var á skipulagsfundi Verks og vits á dögunum þegar um 130 fulltrúar sýnenda komu saman. Framkvæmdastjóri sýningarinnar, Ingibjörg Gréta, og sýningarstjórinn Elsa Giljan fóru yfir skipulagsmál, kynningarmál, sýningarsvæðið og undirbúning sýningarinnar.
Sýnendur voru upplýstir um þau tækifæri sem Verk og vit býður upp á með kynningum, fyrirlestrum og ráðstefnu. Margir sýnendur munu nýta sér sali Laugardalshallar fyrir alls kyns viðburði í tengslum við sýninguna, enda tilvalið tækifæri fyrir þá að koma þjónustu og framleiðslu sinni á framfæri.
Þá voru markaðs- og fjölmiðlamál rædd, m.a. fylgiblað Viðskiptablaðsins um Verk og vit sem kemur út á opnunardegi sýningarinnar, sjónvarpsþátt Hringbrautar um sýninguna og beinar útsendingar, ásamt fleiri tækifærum tengdum fjölmiðlum og auglýsingamiðlum.
Sýningin verður aldrei betri en það sem sýnendur leggja í hana en mikill metnaður er hjá sýnendum og stefnir í glæsilega sýningu sem við hlökkum til að opna. Uppsetning sýningarinnar hefst að morgni 6. mars og hefur að sögn Elsu Giljan sýningarstjóra gengið vel að skipuleggja þann hluta. Hún segir gaman að sjá samstarf á meðal sýnenda með uppsetningu, enda tilvalið að samnýta tæki og mannskap þannig að fleiri njóti góðs af.
Á fundinum var einnig rætt um öryggismál, eldvarnir og tryggingamál. Verk og vit leggur mikið upp úr að allir séu meðvitaðir og gangi í takt með þessi mikilvægu mál þegar heilt þorp rís innan Laugardalshallarinnar með öllum þeim fjölda sem að sýningunni stendur og sækir hana heim.
Um 120 sýnendur, bæði innlendir og erlendir, eru skráðir á Verk og vit 2018 og uppselt er á sýningarsvæðið.