Sýningarsvæði Reykjavíkurborgar var í dag valið athyglisverðast á stórsýningunni Verk og vit sem haldin er í Laugardalshöll um helgina. Það var álit dómnefndar að bás borgarinnar væri öðruvísi og kæmi á óvart og hönnunin frumleg, endurnýtanleg og snjöll. Þá var það gagnvirknin og sýndarveruleikinn í básnum sem heillaði dómnefndina og þótti útfærslan vel til þess fallin að koma málefni eins og Borgarlinunni á framfæri.
„Ég vil byrja á því að þakka dómnefnd fyrir að viðurkenna afrakstur fjölbreytts hóps sem hefur unnið hörðum höndum að því að koma verkinu upp. Þakkir fara líka til Irmu Studio fyrir ótrúlega hæfni og fagmennsku í að framkvæma svona óhefðbundið verkefni, Þ. Þorgrímsonar & Co. fyrir ómetanlegan stuðning og Eyþórs Jóvinssonar og öllum hjá Reykjavíkurborg fyrir að hafa þor og trú. Síðast en ekki síst þá vil ég þakka öllum sem koma að Verk og Vit því sýningin er frábært framlag þegar kemur að því að betrumbæta samvinnu og samtal milli hönnuða, verkfræðinga og tæknilegra aðila í iðnaðinum,“ segir Arnaldur Schram arkitekt.
Annað sætið hlaut ELEMENT. Að mati dómnefndar var þar á ferð stór og flott hugmynd með góðri hönnun og stílhreinni útfærslu. Í þriðja sæti voru Vinnupallar en álit dómnefndar var að bás fyrirtækisins væri einfaldur en kæmi vörum þess vel á framfæri.
Einnig veitti sýningarstjórn svokölluð Sýningarverðlaun og horfði þá aðallega til útlits og glæsileika básanna. Að þessu sinni voru það Límtré Vírnet, Armar og BYKO sem þóttu skara fram úr.
Bás Límtrés Vírnets þótti vel hannaður og áhugaverður. Eins þótti viðmót starfsfólksins gott sem gerði upplifunina enn betri. „Þetta er frábært og það er einmitt okkar stefna að hafa hlutina einfalda og þjónusta viðskiptavini vel. Það er búið að vera mjög gaman að taka þátt í þessari stórsýningu og greinilegt að við erum á réttri leið því fjöldi gesta er mikill og áhuginn einnig,“ segir Andri Daði Aðalsteinsson, markaðsstjóri Límtrés Vírnets. BYKO þótti með vel framsettan og opinn bás sem er trúr vörumerkinu BYKO. Armar voru með skýra og vel heppnaða framsetningu.
„Það er greinilegt að sýnendur lögðu sig alla fram við gerð básanna og eins skín það í gegn að starfsmenn fyrirtækjanna hafa mjög gaman að þessu. Sýningin í ár er virkilega sterk og efnismikil, svo þetta var erfitt val, en vinningshafarnir eiga viðurkenningu skilið,“ segir Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit 2018 og formaður dómnefndar.
Dómnefndina skipuðu þau Elísabet Sveinsdóttir, markaðssérfræðingur, Helgi Steinar Helgason, arkitekt hjá Tvíhorf arkitektum, Pálína Gísladóttir, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Eikar, Elsa Nielsen, grafískur hönnuður, og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verks og vits 2018.