Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins segir í viðtali í fylgiblaði Viðskiptablaðsins um Verk og vit að sýningin sé að mörgu leyti uppskeruhátíð þeirra fjölmörgu aðila sem koma að byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð. ,,Félagsmenn Samtaka iðnaðarins taka margir þátt en þar má t.d. nefna framleiðendur, hönnuði, ráðgjafa og verktaka af ýmsum gerðum. Mikill áhugi var á sýningunni 2016 og á það einnig við að þessu sinni,” segir hún enn fremur.
Jóhanna segir að ástæðan sé kannski fyrst og fremst sú að þróun í þessari atvinnugrein er mjög hröð auk þess sem að mörg ný fyrirtæki hafa nú hafið starfsemi. ,,Til marks um það má geta að fjöldi fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var 4.811 árið 2016 og fjölgaði þeim um 295 frá fyrra ári. Hafði fyrirtækjum þá fjölgað um 674 frá því 2012 eða frá þeim tíma sem fjárfestingar í hagkerfinu fór að taka við sér aftur. Það eru hvorki meira né minna en ríflega 6,7% allra fyrirtækja í landinu sem starfa í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.”
,,Við viljum einnig nota tækifærið og hvetja allt ungt fólk sem áhuga hefur á störfum innan greinarinnar til að fara á sýninguna og upplifa hvað þessi atvinnugrein er fjölbreytt og skemmtileg. Það er mikið hagsmunamál að vekja áhuga framtíðarinnar á því sem þarna fer fram í þeim tilgangi að fá nýtt á áhugasamt fólk inn í stéttina. Þá er einnig vert að nefna að tæplega 6,8% allra launþega í landinu voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á fyrstu tíu mánuðum ársins í fyrra. Rímar það við hlutdeild greinarinnar í verðmætasköpun í hagkerfinu sem einnig var 6,8% á árinu 2016. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að það er mikill áhugi á sýningunni og nú þegar eru nánast öll sýningarrýmin uppseld,” segir hún.
Nýjar og fjölbreyttar byggingaraðferðir
Jóhanna segir að atvinnugreinin sé að taka mjög hröðum breytingum erlendis og hér heima, m.a. með tilkomu nýrra tæknilausna, krafna um aukna vitund í umhverfismálum og aukna áherslu á samfélagsábyrgð. Sýningar á borð við Verk og vit gefi því fólki ekki aðeins tækifæri á að kynna þessar nýjungar sem gerir þeim kleift að auka samkeppnishæfni sína heldur einnig að fá yfirsýn hvað varðar nýjar og fjölbreyttar byggingaraðferðir og lausnir.
,,Við getum þó gert betur og Samtök iðnaðarins hafa m.a. talað fyrir því að auka rannsóknir í byggingariðnaði enn frekar hér á landi. Þá er einnig mikilvægt að við stuðlum að frekari nýsköpun á þessu sviði og hvetjum til þess að atvinnulífið komi með lausnirnar. Finna þarf leiðir til að vera með samhæfðari aðgerðir í þeim tilgangi að stytta framleiðslutíma, auka sveigjanleika í kerfinu og leita leiða til að lækka byggingarkostnað,” segir Jóhanna.
Byggingargeirinn mikilvægur
Hún bendir á að byggingargeirinn hér á landi sé mjög mikilvægur í íslensku atvinnulífi og hann eigi stóran þátt í hagvextinum um þessar mundir. Aukningin í veltu sé 14,4% á milli ára og er því ein sú mesta meðal atvinnugreina hagkerfisins. Veltan í greininni var um 7,2% af heildarveltu allra atvinnugreina hagkerfisins á þessum tíma í fyrra samanborið við 6,4% á sama tíma 2016. Jóhanna segir að þetta undirstriki mikilvægi greinarinnar í hagvexti tímabilsins og aukið vægi í verðmætasköpuninni.
Mikil uppbygging
,,Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að mikil uppbygging á sér nú stað. Mikið hefur hvílt á byggingariðnaðinum í uppbyggingu innviða sem hefur verið grundvöllur þess mikla vaxtar í þjónustuútflutningi sem einkennt hefur þessa uppsveiflu. Hafa fyrirtæki í greininni, svo dæmi sé tekið, staðið í ströngu við uppbyggingu gistirýmis fyrir ferðamenn á sama tíma og mikil þörf er á nýju íbúðarhúsnæði til að mæta almennri fólksfjölgun í landinu. Einnig má nú búast við uppbyggingu á nýjum atvinnuhúsnæðum sem eru nú að færast fjær íbúðarbyggð,” segir hún.
Jóhanna nefnir að með örum vexti greinarinnar komi auðvitað vaxtaverkir sem mikilvægt sé að allir sem koma að uppbyggingu greinarinnar taki sameiginlega á. ,,Uppbyggingunni fylgir t.d. mikill fjöldi nýrra starfsmanna sem þarf að hlúa að og fræða. Til að setja þetta í samhengi þá var heildarfjöldi launþega í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 10.700 á árinu 2016 samanborið við 7.200 árið 2012. Fjölgunin er því um 3.500 launuð störf eða tæplega 15% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á þeim tíma. Á síðasta ári hélt svo þessi fjölgun áfram og að meðaltali voru um 12.360 launþegar í greininni á fyrstu tíu mánuðum þess árs sem er 17% aukning frá sama tíma 2016. Það er því óhætt að fullyrða að greinin er ein þeirra sem upplifði hvað mestan vöxt á síðasta ári en vöxturinn vó um 22% af heildarfjölgun launþega í öllum atvinnugreinum hagkerfisins á fyrstu tíu mánuðum síðastliðins árs.”
Viðtalið við Jóhönnu Klöru birtist í fylgiblaði Viðskiptablaðsins um Verk og vit, fimmtudaginn 18. janúar 2018.
Viðtalið tók Róbert Róbertsson en myndina Haraldur Guðjónsson.