Mikill áhugi fagaðila og almennings á byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum sýndi sig á stórsýningunni Verk og vit sem haldin var í Laugardalshöll dagana 24.-27. mars, en alls komu um 25.000 gestir á sýninguna. Var aðsóknin sú sama og á sýningunni 2018 en þá var aðsóknarmet slegið. Um 100 sýnendur tóku þátt að þessu sinni og kynntu vörur sínar og þjónustu, en þetta var í fimmta sinn sem sýningin var haldin.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, setti sýninguna formlega. Fyrstu tveir dagarnir voru ætlaðir fagaðilum en um helgina bauðst almenningi að heimsækja sýninguna og var áhuginn mikill.
„Við áttum von á góðum viðtökum, því áhuginn hefur verið mikill á síðustu sýningum. Það er samt sérlega ánægjulegt að sjá að um 25.000 manns komu og skoðuðu það sem sýnendur höfðu upp á að bjóða. Aðsóknarmet var slegið á sýningunni 2018 en þá komu einnig um 25 þúsund gestir. Það var ljóst á þátttakendum og gestum að það var löngu orðið tímabært að halda svona stórsýningu aftur. Það er einnig greinilegt að Verk og vit hefur skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd. Það er þegar farið að huga að næstu sýningu, en hún er fyrirhuguð á svipuðum tíma 2024“ segir Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar.
Sýningin Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, m.a. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hugbúnaðarfyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum.
Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar eru innviðaráðuneytið, Landsbankinn, BYKO, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.