Fjölmenni var á upplýsingafundi sýnenda Verks og vits í Laugardalshöll 18. janúar. Farið var yfir kynningarmál og hönnun sýningarsvæða ásamt því að kynna þjónustuaðila sýningarinnar.
Metaðsókn er á Verk og vit 2018 en nú rétt tæpum tveimur mánuðum fyrir sýninguna er sýningarsvæðið orðið nær uppselt.
Verk og vit er fyrst og fremst fagsýning og því gott tækifæri fyrir aðila í byggingaiðnaði, mannvirkjagerð, skipulagsmálum og tengdum greinum að sýna hve framsækið þeirra fyrirtæki eða stofnun er á þessum spennandi markaði.
Mikill hugur í sýnendum
„Það er gaman að sjá hve mikill hugur er í sýnendum og margir þeirra búnir að hanna sýningarsvæði sitt nú þegar. Það verða verulega mörg áhugaverð verkefni kynnt á sýningunni,“ segir Ingibjörg Gréta, framkvæmdastjóri sýningarinnar, og bætir við „enda er hún tilvalið tækifæri til að kynna fyrirtæki, verkefni og þjónustu við bygginga- og mannvirkjageirann, bæði innbyrðis og gagnvart almenningi.“
Ingibjörg Gréta segir að mikil áhersla sé lögð á að vera í góðu sambandi við sýnendur en reynslan hefur sýnt að þessir upplýsinga- og undirbúningsfundir eru mjög mikilvægir til að sýningin verði sem ánægjulegust og áhrifaríkust.
Verk og vit verður haldin í fjórða sinn dagana 8.-11. mars næstkomandi í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Í tengslum við sýninguna verða ráðstefna, málþing og aðrir viðburðir sem kynntir verða þegar nær dregur.
Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.