Stórsýningin Verk og vit verður haldin í fimmta sinn dagana 15.-18. október 2020 í Íþrótta og sýningarhöllinni í Laugardal.

Verk og vit hefur skipað sér sess sem uppskeruhátíð bygginga- og mannvirkjageirans en á síðustu Verk og vit sýningu 2018 var sett aðsóknarmet en þá sóttu um 25.000 manns sýninguna þar sem yfir hundrað sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu.

Fagsýning eins og Verk og vit er mikilvægur vettvangur fyrir byggingariðnaðinn. Sýningin felur í sér tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, að kynna vörur sínar og þjónustu og til að styrkja tengslanetið. Verk og vit hefur þannig skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd.

Eins og kunnugt er átti upphaflega að halda sýninguna 12.-15 mars en í ljósi aðstæðna vegna COVID-19 var heilsa og hagur sýnenda, þjónustuaðila og gesta sýningarinnar sett í algeran forgang og að höfðu samráði við Embætti landlæknis og samstarfsaðila sýningarinnar var ákveðið að fresta sýningunni fram í október 2020.

Sú ákvörðun var tekin með hliðsjón af eðli sýningarinnar og þeim fjölda fólks sem sækir hana heim, þá væri það erfiðleikum bundið að framfylgja að fullu leiðbeiningum almannavarna.

Meðal sýnenda á Verk og vit eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, menntastofnanir, fjármála- og ráðgjafafyrirtæki, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki og sveitarfélög svo eitthvað sé nefnt.

Ráðstefna og fjöldi viðburða verður haldin samhliða sýningunni.

AP almannatengsl er framkvæmdaaðili sýningarinnar en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.