Sýningunni Verk og vit, sem halda átti í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 15.-18. apríl, hefur verið frestað um ár eða til 17.-20. mars 2022. Verk og vit hefur skipað sér sess sem mikilvægur vettvangur fyrir bygginga- og mannvirkjageirann en á síðustu Verk og vit sýningu sem haldin var 2018 var sett aðsóknarmet en þá sóttu um 25.000 manns sýninguna þar sem yfir hundrað sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu.

Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla sem er framkvæmdaaðili Verk og vit, segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin að höfðu samráði við samstarfsaðila. Enn eru samkomutakmarkanir sem miða við að ekki megi fleiri en 20 koma saman. Í ljósi þess að samkomutakmarkanir gætu orðið viðvarandi næstu mánuði var ákveðið að fresta sýningunni um ár eða til 17.-20. mars 2022. Það er sá tími sem flestum sýnendum fyrri sýninga finnst henta best samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið. Þó nokkrir erlendir sýnendur eru í sýningarhópnum, sem og erlendir birgjar og gestir sem sækja sýninguna heim.

Áslaug segir að fagsýning eins og Verk og vit sé afar mikilvægur vettvangur fyrir byggingariðnaðinn. Sýningin felur í sér tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, til að kynna vörur sínar og þjónustu og styrkja tengslanetið. Verk og vit hefur þannig skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd. Hún segist sannfærð um að sýningin Verk og vit 2022 muni verða ein sú mikilvægasta hingað til enda verði þá góður tími til að sækja fram og þétta raðirnar.

AP almannatengsl er framkvæmdaaðili sýningarinnar en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.